Færsluflokkur: Spaugilegt

Vísur um Davíð Oddsson

Hannes Hólmsteinn

 mærir Davíð

 

Víst ertu Davíð, kóngur klár

 

Víst ertu Davíð, kóngur klár,

krýndur seðlum í fjölmörg ár.

Kóngur braskara, kóngur vór.

Kóngur spillingar tignarstór.

Ó, Davíð, mér fannst dýrleg gjörð,

að drekka skál þína, halda vörð . . .

. . . þegar þú bauðst mér bankaráð,

bölvaði fólkið þeirri dáð.

 

Þér hef ég ætíð stillt á stall.

Stórbrotinn ertu, slunginn, snjall.

Eftirlaun færðu fyrir snilld.

Flónskan er snilli ekkert skyld.

 

Frelsaður er ég – finn ég glöggt.

Friedman og Hayek birtast snöggt.

Þú vildir heldur velja mig,

en vitleysinga sem lasta þig.

 

Þér skjátlast aldrei, skýr og klár.

Skáldlegur mjög í fjölmörg ár.

Smjörklípum óðar smurðir á,

smámenni sem þig vilja hrjá.

 

Davíð, ég kýs og krossa nú.

Krýp svo í bæn í sannri trú.

Vald þitt er heilagt! – Vittu til!

Vinur er ég í hríðarbyl!

 

Davíð

 

Ég veit svo margt, en má þó ekkert segja.

Mér líður illa, ef ég verð að þegja.

Mér þykir leitt að lifa einn í hatri,

Laun mín vil ég fá – og það í snatri!

 

Ég forðum vann sem vitrir þegnar muna,

og vildi stjórna dansinum í Hruna.

En fjandinn kom og kippti’ í sína spotta.

Í kút ég hrökk, er fólkið barði potta.

 

Ég er svo klár og kann um flest að makka.

Í kerskni gat ég látið mestallt flakka.

Því vöktu orð mín undrun sem og kæti.

Ekki skil ég þessi köll og læti.

 

Nú hrópar fólkið: – “Farðu burt í skyndi!”

Fæstir sækjast bara eftir vindi.

Ég þráði völd og vildi fá að ráða.

Vinir mínir hvöttu mig til dáða.

 

Ég vildi græða gnótt og safna auði,

og geta lifað – ekki samt af brauði.

Ég á nú rétt á rífum eftirlaunum.

Ræflar mega gæða sér á baunum.

 

Hún Jóka sendi Seðlabankastjórum . . .

. . . soldið bréf og taldi upp að fjórum.

“Elsku Davíð, drekktu þér til vanza.

Dettu í það! – Farðu út að dansa!”

 

 



Höfundur

Sigurður Þór Bjarnason
Sigurður Þór Bjarnason

Um bloggið

Skalaglamm

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Siggi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband